Hinsegin opinberun

Íslensk BDSM kvikmynd

Sindri sparkle Freyr, hinsegin listamaður 

Opening Up hefur verið í vinnslu í meira en ár. Ég er búinn að skrifa og endurskrifa sögur, tæta mig í sundur og endurbyggja mig, því ég trúi því að við séum ekki bara hold og bein heldur erum við sögurnar sem við segjum. Við það að hlusta á sögur annarra festist hluti af þeim í okkur og þannig verðum við öll tengd. Sögur geta hjálpað okkur að skilja heiminn en líka hamlað okkur. Það er, það sem ég vildi tala um í myndinni minni. 

Opening Up er klukkutíma löng kvikmynd um kynlíf, hinseginleika og sögurnar sem við segjum okkur. Í henni segi ég sannar sögur úr lífi mínu og leiði áhorfandann í gegnum rými fullt af málverkum sem myndskreyta frásögnina. Í myndinni tala ég um opin sambönd, BDSM, drag og margt fleira.

Myndin verður sýnd í Samtökunum '78, 9., 10., og 11.júlí klukkan 18:00. Aðgangseyririnn er einungis 1000 kr. Opening Up er hluti af Reykjavík Fringe Festival, listahátíð sem sýnir list á jaðrinum. Vonandi sé ég þig þar.

Eftirfarandi grein er partur af verkinu:

Ég nennti aldrei að ganga í Gleðigöngunni. Mér fannst það alltaf vera svo tilgangslaust í landi eins og þessu. Ég var ekki einu sinni viss hvaða bát ég ætti að vera á, ég átti ekki beint heima í neinum af þeim hópum sem ég féll undir. Ég nennti ekki að standa aftan á pallbíl með fólki sem ég þekki ekki að öskra út í tómið.

Fyrir tveimur árum gekk ég í BDSM samtökin. Fyrsti viðburðurinn sem ég mætti á var munch, sem er bara hittingur á bar til að spjalla. Ég var brjálæðislega stressaður, ég vissi ekki hvernig fólk þetta væri og bjóst við einhverju mun alvarlegra en því sem blasti við mér. Svona 20-30 manns sátu í kringum borð að drekka, borða og spjalla um bæði BDSM og annað. Áður en ég fór, var ég búinn að knúsa stóran meirihluta af herberginu. Síðan þá hef ég mætt á næstum alla viðburði sem ég get, í fyrsta sinn fannst mér ég vera orðinn hluti af samfélagi.

Þegar að hinsegindagar gengu í garð, ákvað ég að ganga. Ég áttaði mig á því að ég hefði þau forréttindi, að geta það. Ég átti svo marga vini sem voru fastir í skápnum og ég skildi ganga fyrir þau. 

Gangan sjálf var ágæt. Hún var frekar hvítþvegin. Þetta var bara fjölskylduhátíð. Við vorum með þeim fáu sem voru með ögrandi atriði og við gerðum það bara með því að vera til. Maður sá nokkur hornaugu en fólk sýndi að mestu virðingu. Það voru nokkrir sem hrópuðu til okkar hrósum eins og „yaaaasss” og fleiru af sama tagi. Við endann á göngunni fórum við framhjá eldri manni, hann fór að gráta þegar að hann sá okkur. Hann var ekki hluti af samfélaginu, hann grét því hann sá sjálfan sig loksins endurspeglaðann. Fólk eins og hann voru akkúrat ástæðan fyrir því að ég gekk. 

Fólkið sem ég gekk með sagði að þetta hafi gengið mun betur en á seinasta ári, í þetta skipti var ekkert „bú-að” á okkur. Þegar að ég hugsa betur um það finnst mér það mjög lágur staðall til þess að miða sig við en það var að minnsta kosti gott tákn fyrir framtíðina.

Næsta ár á eftir var algjörlega klikkað, sýnileiki okkar var meiri en nokkru sinni áður. Við byrjuðum á því að vera hluti af Skaupinu eftir að einn viðburður fór óvart inn á síðu hjálparsveit skáta og svo var það auðvitað Hatari. Þeir voru ekki hluti af senunni en þeir voru í endalausum samskiptum við okkur. Þeir buðu meira að segja nokkrum okkar á Söngvakeppnina, í Laugardalshöll sem klappstýrur. Ég fór klæddur í latex hanska, kjól og ól. Allskyns fólk bað um myndir með okkur. Ég var í gleðivímu marga daga eftir á.

Hatari gekk með okkur í Gleðigöngunni það árið. Þeir voru ekki klæddir upp þannig að margir tóku ekki einu sinni eftir þeim en þrátt fyrir það var andrúmsloftið breytt. Það voru endalaus köll til okkar, fólk elskaði okkur og í staðinn fyrir að líta í burtu beindust myndavélarnar beint að okkur og við enduðum í kvöldfréttunum.

Gangan endaði í Hljómskálagarðinum þar sem tónleikarnir voru. Allir stærstu hinsegin tónlistamennirnir komu fram. Flestir mjög góðir en allir voru uppteknir af því að tala saman, hundruð manns að hálf hlusta á tónlistina. Svo sagði kynnirinn orðið: „Hatari” og fólkið leit upp, þegar að þeir komu á sviðið brjáluðust allir. Ég stóð í miðjum fólksfjöldanum, klæddur frá toppi til táar í latex og tárin byrjuðu að streyma. Ég sá mig endurspeglaðann og ég sá alla í kringum mig upphefja það sem ég er. Það sem ég er, er kinky og ég má það.