Hugmyndir að gæsun

Gæsanir eru ótrúlega skemmtilegir viðburðir fyrir alla þá sem koma að á einn eða annan hátt. Heill dagur (eða helgi) sem er heiðraður tilvonandi brúður sem leggur brátt leið sína upp að altari til að játast ástinni sinni.
Því ber sannerlega að fagna!
Brúðir er heldur betur misjafnar eins og þær eru margar og það sama gildir um gæsanir. Það er lykilatriði að dagurinn sé sniðinn að gæsinni og mikilvægt að hafa í huga hvernig karakter hún er þegar verið er að plana daginn.
Í mörgum gæsunum eru fíflalæti, drykkja, og áskoranir sem þvinga gæsina verulega út úr þægindarammanum í fyrirrúmi, meðan að í öðrum hópum er rólegra yfirbragð þar sem er frekar farið í spa, dekur og jafnvel teboð til tilvonandi tengdamóðurinnar, sem dæmi.


Það tíðkast að reyna að koma gæsinni algerlega að óvörum þegar hún er sótt eða boðuð í sína eigin gæsun alveg grunlaus. Það er gott að ræða það innan hópsins hvort að gæsin vilji yfir höfuð láta koma sér á óvart á einn eða annan hátt.
Í flestum tilfellum er það bara skemmtilegt að láta koma sér á óvart en það má hugsa sig tvisvar um ef viðkomandi glímir við kvíða eða önnur veikindi þar sem eitthvað óvænt getur komið aðilanum í ójafnvægi.
Það er mikið í boði þegar kemur að því að velja atriði inn í daginn, en það sem skiptir mestu máli er að hugsa hvað brúðurin myndi vilja gera, hverju hefur hún gaman af? Hvað vildi hún gera meira af og hvað hefur hana alltaf langað til að gera?
Það er krefjandi að finna hið fullkomna jafnvægi í skemmtilegri dagskrá án þess að hafa daginn of þétt bókaðan og þarf líka að passa að hafa ekki of mikinn dauðan tíma inn á milli.
Við mælum með því að hafa "plan B" ef ske kynni að eitthvað af atriðinum dytti út vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna.


Hér er listi yfir vinsælustu “atriði” fyrir vel heppnaða og skemmtilega gæsun!
Brunch
Spa
Sund
Ratleikur
Pole Dance
Magadans
Karaoke
Syngja og taka upp í stúdíói
Fara á hótel/bústað yfir nótt
Listflug
Kynlífstækja kynning frá Losta ;)

Fyrstu og mikilvægustu skrefin í að skipuleggja vel heppnaða gæsun eru:
1) Gestalisti
2) Dagsetning
4) Kostnaður

Það er ekki óalgengt að brúðurin sé búin að koma nöfnum niður á blað og afhenda bestu vinkonu, systur eða öðrum aðila sem líklega kemur að skipulagningu á gæsuninni.
Þetta er frábært tækifæri til að sameina ólíka vinahópa og að vinkonur gæsarinnar, úr ólíkum áttum kynnist betur.
Vinsælast hefur verið að útbúa Facebook grúbbu til að halda utan um skipulagið, þar getur fólk skipst á hugmyndum og fleira.
Dagsetningin ræðst yfirleitt af því hvenær flestir komast en oft getur verið erfitt að finna dag sem hentar öllum, ef fyrirvarinn er góður eru meiri líkur á því að finna dag sem hentar öllum.
Þá er sniðugt að setja sig í samband við brúðgumann eða annan aðstandenda og staðfesta að ekkert standi til á áætluðum gæsunar degi.
Það er mjög þægilegt að vera búin að reikna út kostnaðinn fyrirfram og jafnvel greiða fyrirfram það sem er hægt. Oftast borgar hver fyrir sig og svo er kostnaði fyrir gæsina sjálfa deilt niður á hópinn.
Það er þægilegast fyrir alla að hafa allt upp á borðinu svo allir í hópnum hafi góða yfirsýn yfir kostnað frá upphafi og geti gert viðeigandi ráðstafanir. Enda ekki gaman að koma fólki í óþægilega stöðu með óvænt útgjöld sem gleymdist að nefna eða slíkt.
Það sem skiptir mestu máli á svona dögum er að njóta, hafa gaman og taka fullt af myndum!

Góða skemmtun!