Ósamræmi í kynlöngun para

Misræmi í kynlöngun er eitthvað sem er furðulítið rætt af alvöru.

Sketsar, "brandarar" og jafnvel heilu þátta- og kvikmyndahandritin hafa lengi notað ójafna kynlöngun para sem efnivið, en þá oftast undir því yfirskini að aðilinn með minni löngun sé að bregðast og að heilbrigt parasamband miðist við að vera alltaf til í hvort annað á sama tíma.


Byrjum bara á að slá alfarið á þá þrautseigu mýtu. Það eru mjög fá pör sem eru með alveg sömu langanir; vilja stunda kynlíf í alveg sama magni og alveg jafn oft (og rannsóknir leiða sífellt skýrar í ljós að í gagnkynhneigðum samböndum er það alls ekki frekar konan sem er með minni löngun í kynlíf, en meira um það síðar).
Meira að segja þegar löngunin er alveg í takt, þá er samt ekki víst að báðir aðilar vilji það sama útúr kynlífi, auk þess að pör sem eru með nokkuð jafna kynlöngun eiga samt flest tímabil þar sem það fer úr skorðum.


Mikilvægt er að taka fram að það er ekkert sem heitir "eðlileg" kynlöngun. Við erum alveg jafn misjöfn og við erum mörg og það getur hentað sumum að stunda kynlíf mánaðarlega eða sjaldnar á meðan að önnur eru ekki fullnægð nema að kynlíf sé partur af daglegri rútínu. Hvort tveggja er alveg jafn heilbrigt, svo lengi sem það er náttúruleg löngun manneskjunnar.


Við vitum að flest kynferðisleg sambönd byrja með spennu og frekar mikilli  kynlöngun, og því er oft ekki að marka hversu vel fólk virðist vera takt" til að byrja með.

Ef við viljum gera okkar besta til að fyrirbyggja erfiðleika þegar líða fer sambandið, er ein gullin regla sem hjálpar öllum samböndum að byggja góðan grunn.

Já, þið giskuðuð rétt: SAMSKIPTI!

Opin og góð samskipti frá upphafi er besta mögulega uppskriftin fyrir fullnægjandi og gott samband. Það er ótrúlega gott að ræða sem fyrst hvað skiptir ykkur verulega máli í kynlífi og hvað þið þurfið til að vera ánægð. Reynið að horfa framhjá lostafulla bleika skýinu sem getur einkennt fyrstu mánuðina í kynferðislegu sambandi, verið hreinskilin við sjálf ykkur (og í leiðinni, makann) og reynið að tjá hverjar ykkar væntingar og grunnþarfir í kynlífi eru.
♥ Viljiði almennt mikla nánd en bara kynlíf inná milli?
♥ Þurfiði mikla snertingu dags daglega?
♥ Teljið þið ykkur fljót að finna fyrir óróleika eða jafnvel biturleika ef þið stundið kynlíf ekki nógu reglulega að þínu mati?

Það getur verið krefjandi að eiga að meta sjálf okkur sem kynverur á svo óhlutdrægan hátt... en einföld leið til að byrja þetta samtal er að staðsetja sig á skala og velja tölu á milli 0 og 10, og biðja makann um að gera slíkt hið sama.

Staðsetur þú þig við töluna 8 og hún/hann/hán gaf sér töluna 7?
Það er frábært! Þá getiði fært samtalið yfir í að þú útskýrir af hverju þú gafst þér 8 en ekki 7... og makinn útskýrir sitt svar. Kannski komist þið að því að þið eruð í raun með sömu kynlöngun, þið mátuð hana bara aðeins öðruvísi. Kannski komist þið að því að það er stór ástæða fyrir því að þið eruð ekki með sömu kynlöngunar-tölu, og getið rætt hversu tilbúin þið eruð til að málamiðla og mæta hinu.

En ef þú valdir þér töluna 3 og makinn valdi töluna 9?
Er það áskorun sem þið eruð bæði til í að taka og vinna ykkur saman í gegnum?
Eða er það kannski merki um að langtíma kynferðislegt samband ykkar á milli yrði frekar uppspretta særinda, biturleika og óhamingju?
Þetta er mun einfaldari ákvörðun til að taka í upphafi sambands, sem gerir þetta að svo góðu samtali til að eiga snemma.


Þegar fólk áttar sig á því eftir langt samband að mikið misræmi er á kynlöngun beggja, eða þegar kynlöngun breytist mikið þegar líður á samband, getur það verið gríðarlega stór áskorun.


En af hverju breytist kynlöngunin?
Ef við teljum ekki með minni kynlöngun eftir fyrstu "honeymoon" mánuðina í sambandi, heldur einblínum á þegar að kynlöngun annars aðila breytist eftir lengri tíma, þá eru ótal mögulegar ástæður, og nauðsynlegt að skoða þær betur.

Breytingar geta þróast yfir lengri tíma og geta sveiflast í báðar áttir útfrá hormónum, sjálfstrausti og almennri líðan.

Hafa orðið áföll eða aðrar stórar breytingar? Er mögulega tímabundið álag eða veikindi að hafa áhrif?
Allt slíkt getur haft mikil áhrif á kynlöngun og það er fullkomlega eðlilegt og ekki hægt að ætlast til þess að það lagist á einni nóttu. Það eina sem skiptir máli þar er hvort báðir aðilar vilji sjá til þess að þær breytingar séu aðeins tímabundnar, ef þið hafið verið í nokkuð góðum takti og bæði/báðir/báðar verið ánægð með ykkar kynlíf, hvort þið hafið jafnan áhuga á leggja ykkar að mörkum við að koma öllu aftur í sinn farveg.

Ef engir augljósir utanað komandi þættir eru að hafa áhrif þá er gott að líta inn á við. Tilfinningalegar ástæður að baki breytinga í kynlöngun eru mjög algengar. Er manneskjan sem upplifir minni kynlöngun að fá þann stuðning og þá hlýju sem viðkomandi þarfnast? Er viðkomandi undir álagi sem hinn makinn getur deilt? Er mikil tenging og nánd ykkar á milli án þess að hún sé kynferðisleg? Er löngun annars ykkar í kynlíf búin að breytast... eða er löngun ykkar í kynlíf með makanum búin að breytast?

Þó að minni kynlöngun sé oftar það sem veldur vandamálum í samböndum, þá er það alls ekki svo að aukin kynlöngun sé alltaf af hinu góða heldur. Meira að segja heilbrigðisstarfsfólk og aðrir sérfræðingar eiga til að gleyma því að stundum er aukin löngun í kynlíf eitthvað annað í dulargervi; tól til að forðast erfið samtöl og fresta því að tækla vandamál, allt undir því yfirskini að vera að vera að leitast eftir nánd og tengslum.

En þegar við förum að tala betur saman og æfa okkur í að tjá það sem við viljum, hlúa betur að hvoru öðru tilfinningalega, þá bætist kynlífið oft sjálfkrafa í leiðinni. Við viljum flest snertingu, nánd og stuðning, og það er magnað hvað það að bæta tilfinningahliðina og vera meira saman án þess að það snúist um kynlíf... kallar oft á kynlíf!


Það er hins vegar mjög auðvelt að segja bara "bætum okkur" án þess að hafa beint hugmynd um skrefin sem þarf að taka. Það eru ótal aðferðir sem hægt er að beita til að ná sér aftur á strik, og persónu- og sambandsbundið hvað hentar hverju sinni.
Hér eru þó nokkrar hugmyndir sem geta komið pörum af stað í ferlinu að sinni kynlífs-harmoníu:


1. Tölum öðruvísi um kynlíf.
Kynlíf er sjaldnast sviðsframkoma, og fullnæging er ekki ósjálfrátt markmið og/eða endapunktur. Gerum eitthvað gott og nautnalegt saman sem þarf ekki að innihalda beina örvun eða fullnægingu. Kúr, kossar og nudd eru allt notalegar athafnir sem kveikja undir löngun okkar fyrir frekari snertingu og losa um jákvæð boðefni í heilanum.

2. Verum til staðar!
Verum saman, verum til staðar. Nánd er eitt það mikilvægasta sem við eigum, sem oft fer að gleymast í langtímasamböndum. Í upphafi er oft svo spennandi að snerta hinn aðilann, þó það sé bara að haldast í hendur. Gerum meira af því, bæði því það gerir okkur svo gott, og vegna þess að eins og áður segir; snerting kallar á meiri snertingu. Kyssumst hæ og bæ, leiðumst þegar við göngum saman, allt hjálpar þetta við að styrkja tengslin og í kaupbæti: auka líkurnar á að okkur langi í kynlíf.

3. Setjum okkur í spor hvors annars.
Ef okkur finnst makinn alltaf vera að neita okkur um kynlíf... hvernig þætti okkur að vera sífellt sett í þá stöðu að hafna manneskjunni sem við elskum? Hvað er að valda og hvernig getum við bætt samskiptin í báðar áttir?
Eða ef okkur finnst við alltaf vera að skjóta makann niður. Ef við værum í öfugum sporum, hefði það ekki líklega neikvæð áhrif á sjálfstraustið að vera stöðugt hafnað? Er kannski eitthvað sem gæti gert kynlíf meira heillandi fyrir makann? Getum við æft okkur í "Nei, en..." og stungið upp á öðrum tíma eða stungið uppá e-u öðru fyrir okkur að gera sem færir okkur nánd án þess að innihalda kynlíf?


4. Ákveðum tíma fyrirfram.
Fólk sem hefur upplifað tímabil með litla kynlöngun, talar um að það hafi oft raunverulega löngun, því finnist það bara aldrei hafa tíma eða orku.
Að stunda kynlíf samkvæmt fyrirfram ákveðnu skipulagi hljómar gríðarlega ósexí fyrir mörgum, og á yfirborðinu er það kannski rétt. Hver vill setja eitthvað jafn persónulegt og kynlíf upp í excel?

EN, hver nákvæmlega er munurinn á því að deita í upphafi sambands, og að vera með skipulag utan um kynlíf í langtíma sambandi?
Ekki mikill, hvort tveggja inniheldur það að ákveða fyrirfram stað og stund og svo hittast og kannski stunda kynlíf.

En ætli það sé ekki eftirvæntingin sem fylgir oft stefnumótatímanum gerir hann meira spennandi. Það að vera í skriflegum samskiptum reglulega áður en fólk hittist, vera með fiðring í maganum af spennu.
Það er ekkert sem stöðvar okkur í að hita upp á sama hátt þótt við séum í langtímasambandi. Njótum þess að daðra, stríða og æsa hvort annað upp yfir lengri tíma, byggjum upp eftirvæntingu og eigum svo frábært deit... og vonandi gott kynlíf!


5. Stingum upp á breytingum!
Það þarf ekki mikið til að krydda kynlífið. Það er líka til í dæminu að fólk er ekki endilega að upplifa minni löngun í kynlíf almennt... það er bara með leiða á að stunda kynlífið sem það þekkir. Alltaf sama rútínan.
Stundum við venjulega kynlíf á kvöldin, inní svefnhergi?
Sýnum frumkvæði og reynum við makann að morgni, í sturtunni, inní eldhúsi.
Stundum þarf ekki meira til að sprauta nýrri og sexí orku inn í sambandið!


6. Sjálfsfróun og leikföng
Ef við höldum ekki í við kynlöngun makans, verum samt til staðar!
Við getum stundað kynlíf án þess að kynfærin okkar séu partur af því. Getum við boðið munnmök, örvun með fingrum, leikföng?
Það þarf ekki að vera neitt síðra að stunda kynlíf með makann sem hjálparhellu og stuðningsaðila... annaðhvort örvandi okkur með munni, höndum, leikföngum, eða hreinlega bara orðum. Eða að stunda sjálfsfróun með makann hjá okkur, án þess að viðkomandi taki virkan þátt. Það getur búið til ótrúlega nána og heita stund, auk þess sem það er alltaf séns á að það kyndi undir áhorfandanum.

Það er mikilvægt í sambandi að við bæði sýnum og veitum skilning og rými til sjálfsfróunar. Sjálfsfróun er eitt það náttúrulegasta, fallegasta og besta sem líkaminn okkar er fær um. Það að fá hvatningu frá maka að stunda sjálfsfróun án þess að vera dæmd eða skömmuð fyrir ætti að vera sjálfsagt, en er það því miður ekki nógu oft þannig. Sjálfsfróun getur nefnilega bæði losað um uppsafnaða spennu sem er að aftra okkur í að njóta kynlífs með maka, og svo er staðreyndin sú að fólk sem stundar virka sjálfsfróun í sambandi, er líklegra til að langa oftar í kynlíf með makanum. Öll græða!

Leikföng eru líka mikilvæg og dásamleg í samböndum þar sem kynlöngunin er ójöfn í eðli sínu. Ef annar aðilinn vill kynlíf á tveggja vikna fresti, en hinn vill helst daglegt kynlíf, þá getur það vel gengið upp til lengdar ef það okkar sem er með virkari kynorku á gott og unaðslegt leikfangasafn sem heldur þeim heitum á milli þess sem við njótum kynlífs með makanum.


7. Ráðgjöf
Sambands- og kynlífsráðgjöf er eitt af (vonandi) síðustu tabú-unum í heilbrigðisgeiranum. Fyrir sorglega skömmu síðan var einhver feluleikur í kringum það að leita sér sálfræðiaðstoðar, sem blessunarlega er á undanhaldi núna þegar við erum sem samfélag tilbúnari að viðurkenna að flest erum við annaðhvort með sálfræðing eða samþykkjum allavega að slíkur stuðningur gerir okkur gott.
Að leita til óháðs aðila varðandi sambandið okkar er ekkert öðruvísi, og meira að segja reynist það pörum sérstaklega gagnlegt ef þau fara í ráðgjöf áður en raunveruleg vandamál verða til. Að fara til sambandsráðgjafa getur verið merki um sérstaklega heilbrigt og sterkt samband, milli fólks sem vill gera allt sem í boði er til að halda sambandinu heilbrigðu og sterku.


8. Að opna sambandið
Þessi leið virkar alls ekki fyrir öll sambönd. Sambandið þarf að standa á sterkum fótum og fullkomið traust þarf að ríkja milli beggja ef fólk vill skoða þennann möguleika án þess að setja sambandið sitt í hættu. Mikilvægt er að ræða þetta í þaula á mjög opnum nótum og bera fullkomna virðingu fyrir tilfinningum makans, hverjar sem þær eru, enda eru opin sambönd flókin fyrirbæri sem samfélagið forritar okkur snemma til að líta á sem eitthvað einkennilegt og rangt.
Ef við hins vegar erum í traustu og góðu sambandi með traust samskipti, þar sem einu vandamálin stafa af ójafnri kynhvöt að eðlisfari, þá er þetta sannarlega möguleiki. Leyfi til þess að sækja sér kynlíf út fyrir sambandið getur haldið því okkar með meiri kynhvötina fullnægðu og hamingjusömu jafnvel aukið ánægju í kynlífi með maka... og þannig bætt sambandið á fleiri en einn veg.

Eins og sjá má er margra leiða að leita, og það þarf alls ekki að þýða endalok fyrir samband þótt við og makinn okkar séum ekki alveg sammála um hversu oft við við viljum kynlíf.
Lykillinn er samskipti og virðing, sem eru mikilvægustu tólin sem við eigum.