Þrjúsöm

Aðsend reynslusaga um trekanta

Trekantar eru æðislegir. Ég elska þá. Fyrir mér eru þeir pínu eins og að fá 2 fyrir 1 tilboð af þriðjudagstilboði á Dominos, himnasending sinnum tveir. Algjör ofgnótt af vörum, tungum, munnum, typpum, pungum og rössum fyrir mig og hina tvo að leika við. Bókstafleg stanslaus ánægja. Í alvörunni, ég get ekki mælt meira með þeim.

 

En þeir eru líka ótrúlega mikil vinna. Þeir geta sært, grætt, hrætt og hreinlega eyðilagt sjálfsmynd fólks, ef vitlaust er að farið. Þekkjandi báðar upplifanir á eigin typpi vildi ég taka aðeins saman mína reynslu og telja upp hvaða hlutir það eru sem gerir fullkomna uppskrift af að minnsta kosti einu, þó vonandi sem flestum, Ménage à trois.

 

Ég hef bara einu sinni farið í þrísom þegar ég hef verið í sambandi með einhverjum. Það fór ekki vel. Ég hvatti upphaflega til þess, sérstaklega af því ég hafði líka verið mjög skotinn í þriðja aðilanum aðeins áður en ég og þáverandi kærasti byrjuðum saman og ég var enn með sterkar tilfinningar til viðkomandi. Eitthvað sem ég hélt leyndu frá kærastanum. Svo fór að við hittumst allir þrír, drukkum okkur mjög fulla og hófumst svo handa. Allt gekk vel í fyrstu en svo þegar fór að líða á var það þriðji aðilinn sem fékk mesta athygli frá mér. Kærastinn varð eftir á vitaskuld særður, leiður og reiður út í mig, með réttu og það tók mikið á sambandið.

Þannig plís ekki gera makanum þínum það að fara í þrísom með þriðja aðila sem þú hefur sterkar tilfinningar til og sömuleiðis er ekki mjög góð hugmynd að fara í þetta undir miklum áhrifum áfengis eða annara efna.

Þessi reynsla gerði mig einmitt eiginlega alveg á móti því að stunda trekant með maka nokkurn tímann aftur. Það bara virtist alls ekki vera þess virði. Auk þess hef ég oft glímt við sjálfsöryggisskort í samböndum og hræðslan við að vera skilinn útundan af maka og þriðja aðila vegna þess að ég væri ekki jafn aðlaðandi og hinir tveir var yfirþyrmandi þegar kom að spurninngunni um þrísom.

Í dag er ég sem betur fer búinn að vinna það vel í sjálfum mér að skortur á sjálfsöryggi er ekki lengur vandamál. Ég er sáttur og ánægður með það hvernig ég lít út. Það hefur einmitt verið einn helsti lykillinn að því að geta stundað virkilega góða trekanta í dag. Læra að sleppa öllum neikvæðum áhyggjum og njóta. Bara núvitunda þetta.

Núna er ég einhleypur og er því eiginlega alltaf þriðji aðilinn í öllum treköntum sem ég fer í. Byggt á eigin vondu reynslu frá því þegar ég var í sambandi og líka frá óttanum sem ég var með um að vera skilinn útundan hef ég það fyrir reglu að fara ekki í þrísom nema að finnast báðir aðilar aðlaðandi. Vissulega er það oft þannig að mér finnst annar þeirra heitari en hinn en þá er lykillinn að láta ekki á því bera, heldur reyna eftir mesta megni að sýna þeim jafn mikla athygli og unun. Enda er það augljós allra hagur að allir séu að njóta sín til fullnustu og vá hvað það er gaman.

Þess vegna hvet ég eindregið til trekanta, svo lengi sem þú ert tilbúinn í það. Ert með sjálfstraustið í lagi, ferð í þá á réttum forsendum, sýnir öllum jafna athygli og passar upp á að öll samskipti séu góð og skýr. Ef þú heldur þig við þetta þá er leiðin að óviðjafnaðri unun, nautn og gamani greið og ekkert annað að gera en að njóta.